Í kvöld fara fram kappræður allra forsetaframbjóðenda á Stöð 2. Sent er út frá Hörpu. Stöð 2 hafði samband við mig á fimmtudagskvöld og bað mig um að taka þátt í þriggja manna panel, sem fyrirhugað var að hafa í tengslum við útsendinguna. Panellinn hefði það hlutverk að ræða aðeins stöðuna áður en kappræðurnar hæfust og koma inn í þáttinn m.a. með spurningar til frambjóðenda öðru hvoru á meðan á kappræðunum stæði og fara yfir frammistöðu frambjóðenda að þeim loknum. Ég tók erindi Stöðvar 2 vel enda reyni ég ávallt að verða við óskum um framkomu í fjölmiðlum. Auk mín áttu að vera í þessum panel Þórhildur Þorleifsdóttir og Katrín Oddsdóttir.
Í gærkvöldi hafði Stöð 2 aftur samband við mig og tjáði mér að framboð Þóru Arnórsdóttur hefði gert athugasemdir við að ég sitji í þessum panel þar sem ég væri andsnúinn framboði hennar. Því væri verið að endurskoða panelinn. Í dag var mér tilkynnt að hætt hefði verið við að hafa panelinn í þættinum. Upphaflega hafði ekki verið gert ráð fyrir panel í þessum þætti og því er eðlilegt að Stöð 2 hætti við að gera breytingar á þættinum, sem frambjóðendur gera athugasemdir við.
Það er hins vegar athyglisvert að framboð Þóru skuli hafa viljað mig úr panelnum. Var ástæða til að óttast mig eitthvað sérstaklega?
Hvaða spurningar frá mér var Þóra hrædd við? Reiknaði hún með annars konar spurningum frá mér en einhverjum öðrum? Hélt hún að þær myndu koma henni illa? Treysti hún sér ekki til að svara öllum spurningum, sem fram gætu komið?
Óttaðist hún að ég spyrði hana um álit hennar á jafnréttisbroti Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra?
Óttaðist hún að ég spyrði hana um það hvort hún er hlynnt aðild Íslands að ESB og léti ekki duga svar um að taka brennandi íbúð á leigu?
Óttaðist hún spurningar frá mér um afstöðu hennar til leiðréttingar á stökkbreyttum skuldum heimila og hvort henni finnist nóg að gert til að aðstoða heimilin í landinu?
Óttaðist hún spurningar um það hvers vegna hún, ein frambjóðenda, hefur nú hafið dýra auglýsingaherferð í fjölmiðlum?
Óttaðist hún eitthvað annað?