• Forsíða
  • Um Tímarím
  • Hafa samband
  • Auglýsingar
  • Íslenska
  • English

logo
facebook
rss
twitter
Haus

  • Forsíða
  • Fréttir og pistlar
    • Ólafur Arnarson
    • Innlent
    • Útlönd
    • Fréttaskýringar
    • Jón Þorbjörnsson
    • Örn Ólafsson
    • Forsetakosningar 2012
  • Rúsínan
  • Menning
    • Bækur
    • Matur og vín
    • Heimilið
    • Viskí
  • Skemmtilegt
    • Lagasafnið
    • Tímagrín
    • Fat-fit
  • Um Tímarím


Völva Tímaríms: Sýndarveruleiki, forystusauður og auðlegðarsýki

30. desember 2015
Höfundur: Tímarím

Framdrifni þýski þjóðarvagn ritstjóra Tímaríms ætlaði varla að hafa það upp ísi lagða götuna inn í botnlangann sem hús völvunnar stendur við. Þetta var dimman hlákudag milli jóla og nýárs og aðstæður lífshættulegar. Tölvustýrð spólstýringin gerði þó sitt gagn og smám saman komst fákurinn á áfangastað. Hana, þarna komst hann yfir mesta brattann og ritstjórinn hugsaði með létti til þess að hann hefði nú sem betur fer borið gæfu til að skipta úr dísel yfir í metan á árinu. Allt fyrir umhverfið!

Sem fyrr býr völvan í uppsveitum Reykjavíkur með útsýni yfir vatnið fallega, beint yfir að fæðingarstað Einars Benediktssonar. Ritstjóranum varð hugsað til skáldsins er hann fótaði sig varlega eftir votu svellinu að lóð völvunnar. Styttan af Einari, sem áður var í niðurníðslu á Klambratúni, var nú komin á sæmdarstað, við Höfða, uppgerð og skáldinu til sóma. Það var vart nema fyrir fótafimustu menn að halda jafnvægi á rennblautri klakahellunni sem þakti allan botnlangann.

Loksins komst ritstjórinn, með báðar hendur útréttar beint út frá líkamanum og líkastur því sem tæki hann þátt í keppni í limbódansi, inn fyrir lóðarmörk völvunnar. Þar var hættan liðin hjá því heitavatnslögn sér um að stéttin innan lóðar er ávallt auð eins og á sumardegi.

Dyrnar lukust upp og ritstjórinn hefur eflaust litið spaugilega út þar sem hann lenti í nokkurs konar Kóngulóarmannsstellingu út við lóðarmörk og þakkaði sínum sæla að hafa sloppið lifandi og óbrotinn svo langt.

Völvan býður honum að ganga í bæinn og hefur orð á því hve huggulegur henni þyki forláta sixpensari, sem ritstjórinn hafði fengið í jólagjöf og ber á höfði.

Er þetta ekki afmælisútgáfan frá Stetson?

Ritstjórinn játar því

Ég hélt það. Ég keypti einmitt svona handa mínum manni núna fyrir jólin í Herrafataverslun Kormáks og Skjaldar. Svona höfuðfat gerir eitthvað alveg sérstakt fyrir karlmenn,

segir völvan og drepur tittlinga framan í ritstjórann og ekki er laust við að hann roðni eilítið er hann réttir henni sixpensarann.

Þegar völvan hefur vísað til sætis við arininn í stofunni hverfur hún fram í eldhús og kemur til baka að vörmu spori með postulínsbolla með ilmandi kaffi og skál með konfekti.

Svart og sykurlaust var það ekki?

Ritstjórinn kinkar kolli.

Og svo man ég hvað þér þykir konfektið frá Góu gott. Þetta er ekta Lindu konfekt.

Þegar þau hafa bæði komið sér fyrir við ylinn frá arninum ræskir völvan sig og segir:

Ég held við höfum þetta með aðeins öðru móti en áður. Ég ætla ekkert að reyna að fara yfir allt sviðið því mér finnst ég vera að fá svo skýr skilaboð um ákveðna hluti – undarleg en mjög skýr. Ég skal segja þér frá þeim.

Völvan horfir í eldinn í arninum og logarnir speglast í augum hennar.

Þú veist að eldurinn talar við mig,

segir hún eftir drykklanga stund.

En stundum er þetta dálítið óljóst, eins og logarnir. Þá verð ég að reyna að lesa í eldinn.

Völvan verður dreymin á svip og flöktandi bjarmi loganna endurvarpast af andliti hennar.

Sýndarveruleiki

Á mig leitar sterkt VR. VR? Hvað getur þetta verið? Þetta er örugglega ekki Verslunarmannafélag Reykjavíkur, það er ég viss um. Eða getur það verið? Ætli þetta þýði að átök verði á vinnumarkaði? Nei, mér finnst þetta tengjast einhverjum gleraugum.

Völvan pírir augun og verður ákveðin á svip.

Þetta er VIRTUAL REALITY! Ég sé ekki betur en að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að keypt verði sýndarveruleikagleraugu handa hverju mannsbarni á Íslandi, en samt finnst mér eins og útgerðarmenn og bankamenn fái engin gleraugu. Nú sé ég þetta. Við fjárlagagerðina næsta haust leggur ríkisstjórnin til undir liðnum mannúðarmál að keypt verði sýndarveruleikagleraugu handa þjóðinni til að þjóðin geti lifað í sama veruleika og ríkisstjórnin, útgerðarmenn og bankamenn. Segja má að þessi tillaga þjófstarti kosningabaráttunni fyrir kosningarnar 2017. Alla vega sakar stjórnarandstaðan ríkisstjórnina um að reyna að blekkja þjóðina til fylgilags við sig með sýndarveruleika.

Völvan lítur á ritstjórann og spyr hvort ekki megi bjóða honum örlitla brjóstbirtu í skammdeginu. Ritstjórinn afþakkar og afsakar sig með því að hann sé nú akandi og ástand vega slíkt að ekki veiti af óskertri athyglisgáfu.

Ég ætla nú samt að fá mér Baileys og vona að þér sé sama,

segir völvan og brosir blítt um leið og hún rís á fætur. Hún dregur fram flösku af írska rjómalíkjörnum undan hliðarborði og áður en ritstjórinn nær að umla samþykki sitt er hún búin að skenkja sér ríkulega í belgmikið glas á fæti. Hún fær sér góðan slurk.

Hún hallar sér aftur og lokar augunum. Smám saman byrjar hún að hristast lítillega. Hristingurinn eykst og ritstjórinn veltir fyrir sér hvað sé eiginlega í gangi. Getur völvan verið að fá flog? Skyldilega hættir hristingurinn og völvan galopnar augun og horfir ekki á ritstjórann heldur beint í eldinn.

Dómarar tolla í tísku

Dómarar!

þrumar hún. Svo breytist röddin og hún hljómar eins og fréttamaður hjá RÚV að lesa kvöldfréttir:

Dómstólaráð Íslands hefur nú, í takt við tíðarandann í samfélaginu og til að svara kalli tímans, krafist þess að dómarar við héraðsdómstóla sem og í Hæstarétti fái nýja búninga. Gömlu skikkjurnar séu gamaldags og endurspegli ekki samtímann og því verði að nútímavæða þær. Krafan er að skikkjurnar verði með áfastar hettur og skuli dómarar ávallt hafa hetturnar uppi þegar úrskurðir og dómar eru kveðnir upp. Þá er einnig sett fram krafa um að sérhver dómari fái á kostnað ríkisins náttslopp með áfastri hettu til að nota á síðkvöldum og um helgar ef ganga þarf frá símhlerunarúrskurðum á dómþingi sem haldið er að heimili dómara. Í greinargerð Dómstólaráðs kemur fram að með þessari kröfugerð vilji ráðið sýna almenningi að dómarar fylgist vel með og séu í sínki við samtímann.

Völvan grípur andann á lofti og hallar sér aftur í stólinn.

Vá, mér fannst allt í einu að ég væri að lesa af teleprompter.

Hún ýtir konfektskálinni að ritstjóranum, sem hefur enn sem fyrr nákvæmlega enga sjálfstjórn þegar Lindu konfektið frá Góu er annars vegar. Á meðan ritstjórinn velur gaumgæfilega þrjá mola til að stinga upp í sig byrjar völvan fyrirvaralaust að tala tungum og ritstjórinn áttar sig ekki fyllilega á því hvað hún er að reyna að tjá. Hann greinir vísuorð eins og „Ísland er land þitt“. Allt í einu byrjar völvan að raula „La det swinge la det rock’n roll“ sem norski dúettinn Bobbysocks söng til sigurs í Eurovision hérna um árið eins og allir vita.

Eftirspurn eftir forstjóra Útlendingastofnunar

Völvan hættir að raula og fer að tala um Útlendingastofnun.

Útlendingastofnun mun skipta um nafn á árinu og taka upp nafnið Útlendingastofa eftir að henni er fyrst meinað um að taka upp nafnið Íslendingastofa, sem mun þykja of líkt nafni annarrar stofnunar, Íslandsstofu.

Nú finnst ritstjóranum völvan vaða úr einu í annað. Hann veltir fyrir sér hvort Baileysinn hafi svona skjótvirk áhrif á hana.

Mér finnst ég sjá ekki minni menn en Gústaf Níelsson og Jón Val Jensson beita sér fyrir undirskriftasöfnun þar sem skorað er á Kristínu Völundardóttur að bjóða sig fram. Ég er þó ekki viss um að þetta sé áskorun um forsetaframboð heldur gæti þetta eins verið til að fá hana í framboð fyrir nýjan íhaldsflokk, sem hefur kristin gildi í hávegum og leggur höfuðáherslu á að Ísland skuli vera fyrir Íslendinga. Þeir telja mikilvægt að fá konu í framboð og telja forstjóra Útlendingastofnunar einu konuna sem hægt sé að treysta. Þetta framtak þeirra hlýtur góðan hljómgrunn meðal almennings, ef marka má viðbrögðin hjá þeim hlustendum sem hringja í símatíma á Útvarpi Sögu.

Allt í einu er völvan komin út fyrir landsteinana.

Svo virðist sem landinn fái mikinn fiðring í faraldsfótinn. Eftir erfiðan, umhleypingasaman og afar kaldan vetur þráir mörlandinn ekkert heitar en sandala, ermalausa boli og Quick Tan brúsa, eins og segir í laginu. Sólarlandaferðir munu því renna út hraðar en perutertur ofan í ákveðna ráðherra í matsal Alþingis. Hér heima tekur blessuð orðræðan sér ekkert frí, er á sínum stað á klakanum kalda, sumum stjórnmálamönnum til mikils ama.

Nýtt heilbrigðiskerfi?

Völvan bætir í glasið og lítur blíðlega á ritstjórann um leið og hún spyr hvort ekki megi bjóða honum meira kaffi. Hún sækir rjúkandi ábót og sest svo aftur niður fyrir framan logana og horfir beint fram.

Eins og sólin rís í austri mun boðskapur um nýtt heilbrigðiskerfi koma úr austri,

þrumar hún.

Ég sé hið ljósa man, eða mann? Nei, kona er það, grannvaxin, ljós yfirlitum á miðjum aldri eða jafnvel komin af léttasta skeiði. Hún stígur fram með nýjan sannleik og mér finnst Ayn Rand standa við hlið hennar. Þessi kona, sem mér finnst eins og sé nýkomin úr bæ í borg, verður áberandi á árinu. Hún kynnir nýtt litakerfi í heilbrigðiskerfinu og heilbrigðisráðherra líst svo vel á tillögur hennar að hann tekur þær upp og gerir að sínum.

Heilbrigðiskerfið mun vera með litina gulan, rauðan og gylltan og íslenskur almenningur fær í hendur tryggingaskírteini í þessum litum, sem hægt er að framvísa í hvaða heilbrigðisstofnun sem er á landinu. Gul skírteini verða hin almennu skírteini en rauð skírteini eru ætluð öldruðum og öryrkjum og verður þeim dreift án sérstaks endurgjalds. Gylltu skírteinin verða svo í boði fyrir alla sem hafa efni á.

Einhver styr verður um þetta og sérstaklega verður heit umræða um hvort í kerfinu felist vísun í umferðarljós eða hvort því sé einfaldlega ætlað að mala gull fyrir þá einkaaðila sem sinna þjónustu við sjúka og aldraða.

Hvað um það, hið óvænta gerist og Íslendingar vinna óvænt gullverðlaun í krullu á alþjóðlegu íþróttamóti í Albaníu. Við þann sigur snýst öll umræða um gullverðlaunin og hvort Íslendingar þurfi að halda næsta mót og hvort Egilshöll sé nógu stór til að hýsa það. Eitthvað blandast það inn í umræðuna að skemmtileg og skrítin sé sú tilviljun að Íslendingar sæki gull til Albaníu þar sem heilbrigðiskerfið nýja eigi einmitt rætur sínar þangað að rekja.

Heilbrigðisráðherrann mun hlaða Albaníu lofi og fá stuðning iðins prófessors við Háskóla Íslands, sem telur Albaníu vera fyrirmyndarríki, með einkarekna heilbrigðisþjónustu í hæsta klassa og góð lífskjör. Eitthvað verður talað um að Ísland geti orðið Albanía norðursins og finnst sumum það frábært en öðrum síður. Mér finnst eins og ríkisstjórnin verði jafnvel kennd við Albaníu af álíka hlýju og forveri hennar var kennd við norræna velferð. Ekki er nú víst að stjórnarflokkarnir keyri kosningabaráttu sína undir kjörorðinu: Gerum Ísland að Albaníu norðursins, kannski frekar að þetta verði kjörorð landsfundar, en þegar fram líða stundir munu ráðherrar og þingmenn stjórnarinnar geta sagt barnabörnum sínum frá miklum afrekum á skammvinnum valdaferli.

Völvan sýpur af rjómalituðum miðinum í glasinu og horfir svo drykklanga stund í eldinn áður en hún heldur áfram.

Einstakur forystusauður

Eitthvað finnst mér verða rætt um leiðtogahæfileika forsætisráðherra á komandi ári. Það er skrítið en þetta kemur til mín á ensku. Ég hef alltaf haldið að Leadership væri eitt orð en þetta er leader-ship. Nei, fyrirgefðu mér, þetta er dálítið óskýrt. Núna sé ég þetta betur. Já, þetta er krossaumuð, innrömmuð mynd sem hangir uppi í þingeysku félagsheimili eða einhvers konar safni, sýnist mér. Þarna er saumað „Leader-sheep“. Já, þetta snýst ekki um leiðtoga í eiginlegum skilningi heldur um forystusauði, sem er jú mikið af í Þingeyjasýslum.

Ég sé ekki betur en að rannsóknir DeCode leiði í ljós að forsætisráðherra sé gæddur svipuðum eiginleikum og þingeyskur forystusauður, svona genalega. Þetta kemur mjög á óvart og þykir einstakt enda hafa þessi þingeysku forystusauðsgen ekki áður fundist í mönnum. Þessi genabreyting verður væntanlega rakin til mataræðis forsætisráðherra, en sem kunnugt er getur mataræði breytt karakter manna og jafnvel heilu þjóðanna. Þarna gæti íslenski kúrinn verið að verki.

Hneyksli

Eitthvað meira um pólitíkina, spyr ritstjórinn. Völvan pírir augun og starir í eldinn. Nokkra stund heyrist ekkert nema snarkið í eldinum.

Það kemur upp hneykslismál í ríkisstjórninni fljótlega á nýju ári. Þetta er angi af eldra máli, sýnist mér, og tengist eitthvað húsnæðismálum ráðherra. Spurningar vakna um hvort ráðherrar eigi greiðari aðgang að lánsfé í bankakerfinu en aðrir. Ég sé ekki betur en að ráðherrann verði að leggja öll spil á borðið en óvíst samt að það dugi til að afstýra afsögn.

Mér sýnist skæð flensa og langvinn herja á einhverja ráðherra ríkisstjórnarinnar. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra verða verst úti en einnig sýnist mér innanríkisráðherrann þjást. Við rannsókn kemur í ljós að ekki er um inflúensu að ræða heldur fremur sjaldgæfan sjúkdóm, sem í daglegu máli er kallaður afflúensa, sem á góðri íslensku útleggst sem auðlegðarsótt og lýsir sér í því að þeir sem sýkjast eru með öllu ófærir um að setja sig í spor venjulegs fólks, sem reiðir sig á launatekjur til að framfleyta sér. Sjúkdómurinn er stundum kenndur við hina hálshöggnu Maríu Antoinettu, Frakkadrottningu, sem stundum er sögð hafa stungið upp á því að fátæklingar skyldu borða köku úr því ekkert brauð var að fá. Þessi pest er því sem næst ólæknandi og er einstaklega óheppileg fyrir stjórnmálamenn.

Sameining til vinstri og Píratar áfram stórir

Völvan lítur nú út um gluggann og horfir inn í spegilmynd arineldsins, sem glampar í glugganum.

Píratar verða áfram langstærsti flokkur landsins frameftir árinu 2016. Eitthvað dalar fylgið þegar líður á árið og mér sýnist það aðallega vera vegna innbyrðis deilna Pírata. Þar kann að hafa áhrif að virkum félögum fjölgar mjög eftir því sem líður á árið og í þeim hópi eru ýmsir fyrrverandi flokksmenn úr öðrum flokkum sem á árinu 2016 átta sig skyndilega á því að í hjarta sínu hafa þeir alltaf verið Píratar.

Ég sé fyrir mér samstarf eða jafnvel sameiningu á vinstri væng stjórnmálanna. Þar verða konur í forystu og ekki kæmi mér á óvart þó að Katrín Jakobsdóttir verði forsætisráðherraefni sameiginlegs framboðs vinstri manna í anda Reykjavíkurlistans fyrir kosningarnar 2017. Hún fer ekki í forsetaframboð. Þegar líður á árið verður ljóst að margir þingmenn, bæði ungir og á miðjum aldri, munu þurfa að finna sér nýtt starf eftir kosningar og utanríkisráðherra verður mjög vinsæll meðal bæði stjórnarþingmanna og stjórnarandstöðu.

Verðbólga, einkavæðing og mótmæli

En hvað með efnahagsmálin? Sér völvan eitthvað áþreifanlegt þar?

Hún verður hugsi og snýr sér aftur að arninum. Hún bætir á Baileys og sýpur úr belgmiklu glasinu áður en hún hallar sér aftur í stólnum. Augun eru hálflokuð.

Þetta verður skrítið ár. Uppgjörið við kröfuhafana tefst eitthvað og mér sýnist komið fram á mitt ár áður en frá því verður endanlega gengið. Samt sýnist mér eitthvað gerast með annað hvort Landsbankann eða Íslandsbanka, eða jafnvel báða, þannig að þeir verði seldir til einkaaðila. Það verða heitar umræður um það í samfélaginu og á Alþingi og ég sé ekki betur en að þúsundir eða jafnvel tugþúsundir skori á Forseta Íslands að koma í veg fyrir söluna. Það verða mótmælastöður við Alþingi, stjórnarráðið og fjöldi manns mætir við Bessastaði.

Seðlabankinn hækkar vexti stíft á næsta ári og gengi krónunnar styrkist frameftir ári en allt kemur fyrir ekki, verðbólgan lætur á sér kræla og verður komin vel yfir viðmiðunarmörk Seðlabankans í árslok. Krónan sígur hratt síðustu þrjá mánuði ársins og fólk áttar sig á því að verðtryggingin er búin að éta upp skuldaleiðréttinguna með húð og hári. Ég sé mótmæli og deilur á aðventu.

Ferðamönnum heldur áfram að fjölga og mér finnst eins og á næsta ári muni almenningur og ráðamenn átta sig á því að ekki er lengur hægt að bíða með að setja peninga í að bæta aðstöðu og vernda umhverfið á ferðamannastöðum. Í ljós kemur að ágangur ferðamanna ógnar helstu náttúruperlum landsins.

Góðir Ólympíuleikar og hnípinn Ronaldo

Það er tekið að rökkva og rigningin lemur stofugluggann en frá arninum berst þægilegur ylur og bjarminn frá eldinum flöktir um stofuna. Ritstjórinn spyr hvernig íþróttaárið verði. Völvan leggur frá sér glasið og starir í eldinn.

Íslensk landslið gera það gott. Ekki sé ég neina evróputitla eða slíkt en ég sé ekki betur en að Christiano Ronaldo gangi hnípinn af velli í Frakklandi undir kraftmiklum söng íslenskra áhorfenda. Hér heima sé ég blátt sumar í knattspyrnunni. Bláu liðin vina bæði úrvalsdeildina og þá fyrstu. Þá sýnist mér bið Arsenal eftir stórum titlum vera á enda. Gott ef það verða ekki bara þrír stórir titlar á Emirates á þessu ári. Mér sýnast Valsmenn vera sterkir í handboltanum bæði hjá körlum og konum. Ekki kæmi mér á óvart þó að úrslitaviðureignin í körfunni verði milli KR og Stjörnunnar.

Völvan dregur djúpt andann og lítur á ritstjórann.

Handboltastrákarnir okkar gera það gott. Ég sé ekki betur en að þeir muni keppa á Ólympíuleikunum í Brasilíu og vera í baráttu þar um verðlaunasæti. Anita Hinriksdóttir mun setja glæsilegt íslandsmet í 800 metra hlaupi á Ólympíuleikunum og hlaupa til úrslita ef mér skjátlast ekki.

Það er komið að lokum heimsóknarinnar. Frammi við útidyr réttir völvan ritstjóranum Stetson afmælissixpensarann en ritstjórinn kemur honum vart á höfuð sér, svo þröngt er höfuðfatið. Völvan brosir er hún sér vandræði ritstjórans og segir,

Æ æ, minn hefur þá gleymt húfunni þegar hann fór út. Hann er ekki nærri eins höfuðstór og þú, gæskur.

Ritstjórinn fær réttan sixpensara og kemur honum fyrir á höfði sínu og er albúinn til ferðar, þegar völvan tekur undir arm hans og segir:

Ætlarðu svo ekki að spyrja mig stóru spurningarinnar?

Það kemur á ritstjórann sem líklega hefur orðið eins og eitt stórt spurningarmerki í framan því völvan brosir breitt:

Nú, með forsetann! Ætlar Ólafur Ragnar að bjóða sig fram aftur eða ekki?

 

Já, það,

segir ritstjórinn og gerir spurninguna að sinni.

Hann bíður sig aftur fram. Ég sé ekki alveg hvort það verður með afdráttarlausum hætti í nýársávarpinu en þó finnst mér það frekar. Honum finnst of mikil óvissa í stjórnmálunum, stjórnarskrármálum og ESB málum til að hverfa úr embætti núna. Það verða nokkrir mótframbjóðendur og sumir þeirra mjög frambærilegir en ég sé ekki annað en að Ólafur vinni afgerandi sigur. Þetta verður hans síðasta kjörtímabil.

Við svo búið kvöddust ritstjórinn og völvan og ritstjórinn tók stefnuna út á regnvotann klakann og vonaði að hann kæmist klakklaust að farartæki sínu.

Albanía, Arsenal, Ayn Rand, Christiano Ronaldo, Einar Benediktsson, Gústaf Níelsson, Herrafataverslun Kormáks og Skjaldar, Jón Valur Jensson, Katrín Jakobsdóttir, Kristín Völundardóttir, Ólafur Ragnar Grímsson, Stetson, Útlendingastofnun, Útvarp Saga
Deila á samfélagsmiðlum
Email
Prenta grein
Nýjast
Vinsælast
Pistlar
Go for an image that doesn’t distract the audience and you’ll be much more probably be the main focus of several replies.
28. febrúar 2021
The latest guidelines hit Wonga’s profits difficult, also it finished up publishing a loss that is pre-tax of £65m in 2016. Likewise, other cash advance providers were equally harmed, plus some needed to shut store.
28. febrúar 2021
On The Web Fast Pay Day Loans. Dependable Payday Loans online payday loans that are fast
28. febrúar 2021
Dating internet site like mocospace. It really is a brilliant fabulous application that lets you expand your myspace and facebook in the…
28. febrúar 2021
Online Title Loans could be an option that is effortless get a name loan without making your premises
28. febrúar 2021
Hvaða spurningar var Þóra hrædd við?
24. júní 2012
Umboðsmaður skuldara: Borgaðu bankanum frekar en að borða og kaupa lyf!
26. júlí 2012
Sjálfhverft, siðlaust sjálftökulið!
8. júlí 2012
Bjarni skuldar skýringar
17. júlí 2012
Taugatitringur
14. júní 2012
Völvuspá Tímaríms fyrir 2017
31. desember 2016
Völva Tímaríms var með þetta
19. apríl 2016
Boltinn er hjá Bjarna!
5. febrúar 2016
Völva Tímaríms: Sýndarveruleiki, forystusauður og auðlegðarsýki
30. desember 2015
Völva Tímaríms reyndist sannspá
29. desember 2015
KogS Kubbur
Pixpuffin fyrsti banner
Hlidargluggi
EIR

Rúsínan

Ófeigur og Kolur
2. feb. 2015
Völva Tímaríms glögg - Náttúrupassinn búinn að vera
8. jan. 2015
Er þetta tilstand nauðsynlegt?
4. des. 2014
Sjálfstæðisflokkurinn í sókn?
3. sept. 2014
Ekki hægt að ljúga upp á þá...
20. ág. 2014

Greinasafn

  • febrúar 2021
  • janúar 2021
  • desember 2020
  • nóvember 2020
  • október 2020
  • september 2020
  • ágúst 2020
  • júlí 2020
  • júní 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • mars 2020
  • febrúar 2020
  • janúar 2020
  • desember 2019
  • nóvember 2019
  • október 2019
  • september 2019
  • ágúst 2019
  • júlí 2019
  • júní 2019
  • apríl 2019
  • mars 2019
  • desember 2016
  • apríl 2016
  • febrúar 2016
  • desember 2015
  • október 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • apríl 2015
  • mars 2015
  • febrúar 2015
  • janúar 2015
  • desember 2014
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
  • október 2012
  • september 2012
  • ágúst 2012
  • júlí 2012
  • júní 2012
  • október 2011
  • september 2009
  • ágúst 2009
  • júlí 2009
  • júní 2009
  • maí 2009
Turn
KogS Turn

Efnisorð

AGS Alþingi Arion banki Art Tatum Baugur Bjarni Benediktsson Cole Porter Davíð Oddsson DV Ella Fitzgerald ESB Fat-fit Fats Waller FME Framsóknarflokkurinn Frank Sinatra Glitnir Gylfi Magnússon Hanna Birna Kristjánsdóttir Hægri grænir Hæstiréttur Héraðsdómur Reykjavíkur Iceland Iceland Express Icesave Jóhanna Sigurðardóttir Kaupþing Landsbankinn Louis Armstrong Morgunblaðið RÚV Samfylkingin Seðlabankinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Sjálfstæðisflokkurinn skuldaleiðrétting Steingrímur J. Sigfússon Svavar Gestsson sérstakur saksóknari Tímarím Veggsport verðtrygging Íbúðalánasjóður Ólafur Arnarson Ólafur Ragnar Grímsson

Fylgdu okkur á Facebook

Rss veita Tímarím

Fylgdu okkur á Twitter

  • Twitter feed loading

Tímarím © Ólafur Arnarsson 2012 | Öll réttindi áskilin