Þegar farið er yfir árið 2015 kemur í ljós að völva Tímaríms hafði skýra sýn á komandi ár við síðustu áramót. Hún spáði því að sumar kæmi loks, en árin á undan höfðu landsmenn lítið orðið varir við sumarblíðu, og viti menn, sumarið gerði vart við sig meira að segja á suðvesturhorninu.
Völvan spáði því að bið yrði á því að Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra, kæmi til þings, en hún hafði boðað komu sína strax eftir jólafrí þingmanna:
Ég er ekki viss um að Hanna Birna taki sæti sitt á Alþingi eftir jólahlé og í öllu falli sýnist mér hún ekki taka mikinn þátt í þingstörfum á árinu 2015.
Hanna Birna kom ekki til þings fyrr en rétt fyrir þinglok í vor og lítið sem ekkert hefur borið á henni í þinginu allt árið.
Völvan sá fyrir endalok náttúrupassans en sagði jafnframt fyrir um að ekki fyndist lausn á gjaldtöku til verndunar og uppbyggingar ferðamannastaða á þessu ári.
Þá spáði völva Tímaríms átökum á vinnumarkaði og þá ekki síst í heilbrigðiskerfinu:
Þetta minnir mig á gamla daga, þegar Guðmundur Jaki steytti hnefann og stóð verkfallsvaktina. En það verður ekki Gylfi Arnbjörnsson sem steytir hnefann. Það verður nær grasrótinni. Þá sýnist mér kjaramál í heilbrigðiskerfinu vera áberandi … Á endanum verður samið … jaðrar við fullkomið neyðarástand á Landspítalanum þegar líður fram á vorið.
Þetta gekk eftir og ekki er ofsögum sagt að Landspítalinn hafi verið í hers höndum af og til á þessu ári.
Völvan sá fyrir sér svik ríkisstjórnarinnar í verðtryggingarmálum:
Verðtryggingin verður talsvert í umræðunni allt árið. Snemma á árinu 2015 falla dómar í verðtryggingarmálum, sem verða mjög misvísandi ef mér bregst ekki bogalistin. Hvorir tveggja munu eigna sér sigur í málinu, fylgjendur og andstæðingar verðtryggingar, en almenningur verður engu nær. Bankarnir munu halda sínu striki í verðtryggingunni og hvetja þá sem eru ósammála til að höfða mál. Ég sé ekki betur en að ríkisstjórnin sitji á hliðarlínunni í þessu og leggist frekar á sveif með bankakerfinu en lántakendum.
Völvan sá fyrir að eitthvað myndi gerast varðandi uppgjör slitabúa gömlu bankanna en sagði réttilega fyrir um að það yrði seinna á árinu en búist væri við og ekki myndi uppgjörinu ljúka á árinu. Þá sá hún fyrir að gjaldeyrishöft yrðu ekki afnumin:
Gjaldeyrishöftin verða nú ekki afnumin á árinu en það gerist eitthvað með þrotabú gömlu bankanna. Það verður líklega ekki jafn snemma á árinu og margir búast við heldur sýnist mér draga til tíðinda við fjárlagagerðina næsta haust … en sennilega klárast það nú samt ekki á árinu 2015.
Völvan var sannspá þegar hún spáði því að orðræðan yrði mjög í umræðunni á árinu og að forsætisráðherra myndi láta orðræðuna fara mjög í sínar fínustu taugar:
Orðræðan veldur forsætisráðherra hugarangri á árinu. Hann er sem fyrr mjög óánægður með þá gagnrýni sem hann fær á komandi ári fyrir hinar ýmsu ákvarðanir og styrkveitingar til málefna sem honum eru hugleikin.
Á vordögum kenndi forsætisráðherra orðræðunni og álitsgjöfum um hvernig komið var fyrir ríkisstjórn hans, sem mældist óvinsælasta ríkisstjórn sögunnar. Svo langt gekk ráðherrann að hann flutti sjálfur inngangsorð í boði þáttastjórnanda þegar hann mætti í viðtal hjá Sigurjóni Magnúsi Egilssyni á Sprengisandi í maí.
Völvan spáði fyrir um velgengni íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu í Evrópukeppninni og réttspá var hún um árslokin er hún sagði:
Næsta gamlárskvöld bíður þjóðin svo spennt eftir áramótaávarpi forseta Íslands á nýársdag. Mun hann tilkynna framboð á ný eða ætlar hann að setjast í helgan stein? Það verður stóra spurningin næsta gamlársvöld.