Þá hefur hvíti reykurinn birst yfir Valhöll og búið er að velja nýjan innanríkisráðherra. Greinilega hefur það mál þvælst fyrir formanni flokksins, sem reynir að feta einstigi það sem sneiðir hjá átökum við háværustu frekjurnar í flokknum, útgerðina og Hádegismóra. Síðan þarf vitanlega að passa að fá ekki konur í flokknum upp á móti sér. Þetta virðist hafa tekist bærilega hjá formanninum þó að auðvitað verði nýr ráðherra dæmdur af framgöngu sinni í embætti en ekki kynferði og fyrri störfum.
Það er hins vegar undarlegt að helgislepjan og leyndin yfir vali á einum ráðherra í ríkisstjórn Íslands skuli þurfa að vera slík að engu líkara er en að allir kardinálar kaþólsku kirkjunnar hafi komið saman í Páfagarði að velja nýjan páfa, sjálfan fulltrúa guðs almáttugs á jarðríki. Með fullri virðingu fyrir öllum hlutaðeigandi er einn íslenskur ráðherrastóll ekki það merkilegur að allt þetta tilstand sé nauðsynlegt. Almennt er Íslendingum nákvæmlega sama hverjir sitja í þessum stólum svo framarlega sem þeir gera eitthvað af viti fyrir fólkið í landinu. Langlundargeði Íslendinga er langt til jafnað.