Nýjustu skoðanakannanir gefa til kynna að Sjálfstæðisflokkurinn sé stærsti flokkur þjóðarinnar með fylgi í kringum 30 prósent kjósenda. Björn Bjarnason fagnar því mjög á Facebook að í skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 mældist flokkurinn yfir 30 prósent í fyrsta skipti frá því rétt fyrir landsfund flokksins í febrúar á síðasta ári. Björn þakkar málsvörn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra í máli því sem beinist að óeðlilegum afskiptum ráðherrans af lögreglurannsókn vegna lekamálsins svonefnda þessa fylgisaukningu.
Einhvern tíma hefði það ekki þótt tíðindum sæta að Sjálfstæðisflokkurinn mældist stærstur stjórnmálaflokka og einhvern tíma hefði það þótt fréttnæmt að flokkurinn mældist einungis með ríflega 30 prósent fylgi.
Þegar rýnt er í niðurstöður könnunar Fréttablaðsins kemur í ljós að meira en helmingur þeirra sem tóku þátt í könnuninni neitaði að svara eða gefa upp fylgi við einstaka flokka. Þannig mælist Sjálfstæðisflokkurinn einungis með fylgi 15 prósenta þeirra sem spurðir voru.
Alþekkt er við framkvæmd skoðanakannana hér á landi að Sjálfstæðisflokkurinn fær jafnan mun minna fylgi frá óákveðnum kjósendum en flokkarnir sem teljast til vinstri. Ástæðan fyrir þessu er einföld. Sjálfstæðisflokkurinn er skýr valkostur fyrir þá kjósendur sem hallast til hægri á meðan kjósendur sem hallast til vinstri hafa úr fleiri flokkum að velja og eru því eðlilega óákveðnari en hinir sem kjósa til hægri. Þess vegna hefur Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og fleiri sem framkvæma skoðanakannanir tekið upp á því að spyrja þá sem ekki gefa upp einstaka flokka um það hvort líklegra sé að þeir kjósi Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern annan flokk. Svör við þessari framhaldsspurningu hafa leitt í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn á mun minna fylgi meðal óákveðinna en aðrir flokkar. Fréttablaðið hefur hins vegar ekki þennan háttinn á.
Þegar meira en helmingur þátttakenda er óákveðinn eða vill ekki gefa upp flokk blasir því við að fylgi Sjálfstæðisflokksins er stórlega ofmetið. Það er því óvarlegt hjá forystumönnum flokksins að fagna um of þessari niðurstöðu Fréttablaðsins þó að eflaust sé það rétt að Hanna Birna á stóran þátt í því að raunverulegt fylgi flokksins um þessar mundir virðist liggja einhvers staðar á bilinu 20-25 prósent.
Það verður hins vegar ekki af Birni Bjarnasyni tekið að við fátt verður gamansemi hans jafnað, þegar hann telur innanríkisráðherra hafa bætt við fylgi Sjálfstæðisflokksins á undanförnum vikum, enda tilheyrir Björn víst þeim hópi sjálfstæðismanna sem kætist æ meir eftir því sem fámennara og góðmennara verður í flokknum.