Flestum er okkur í fersku minni hve óskeikular greiningardeildir bankanna voru fyrir hrun. Með nánast 100 prósent vissu var hægt að taka fjárfestingarákvarðanir þvert á ráðleggingar greiningardeilda og læsa inn góðan hagnað. Síðan eru liðin mörg ár, bankarnir fallnir og nýir komnir á blað. Greiningardeildirnar virðast hafa komist í gegnum hrunið án þess að taka eftir því. Í öllu falli virðast þær lítið hafa lært af reynslunni.
Í fúlustu alvöru halda greiningardeildirnar því fram að ekki sé komin í gang eignaverðsbóla hér á landi. Mögulega geti einhvern tíma í framtíðinni verið hætta á slíku en það sé langt inni í framtíðinni. Stórkostlega verðhækkanir á hlutabréfamarkaði telja greiningardeildirnar fullkomlega eðlilegar og vísa til þess að lykiltölur og margfeldi séu svipuð og á erlendum hlutabréfamörkuðum. Að mati greiningardeildanna skiptir engu máli að flest íslensk fyrirtæki starfa í hinu lokaða íslenska hagkerfi og eiga sér ekki nándar nærri eins mikla vaxtarmöguleika og fyrirtæki sem starfa úti í hinum stóra heimi.
Greiningardeild Arion banka var að komast að því að verð á fasteignum í miðborg Reykjavíkur sé mjög viðræðanlegt. Helstu rökin fyrir því eru að í evrum talið sé verðið bara alls ekki hátt. Stundum er bara eins og ekki sé hægt að ljúga upp á greiningardeildirnar því vitleysan sem kemur frá þeim tekur lyginni fram á öllum sviðum. Eflaust er íbúðaverð í miðborg Reykjavíkur mjög viðráðanlegt fyrir útlending, sem er með tvö- til þrefaldar ráðstöfunartekjur á við Íslending, sem þarf að reyna að komast af á íslenskum atvinnumarkaði. Ekki dregur það úr viðráðanlegheitunum fyrir útlendinginn að hann fær tuttugu prósenta afslátt í gegnum gjaldeyrisleið Seðlabankans, sem ekki stendur íslendingnum til boða.
Það er áhyggjuefni er greiningardeild Arion banka er alvara með þessu mati sínu á fasteignaverði í miðborg Reykjavíkur og ekki síður ef sérfræðingar greiningardeildarinnar eru vísvitandi að fara með fleipur í greiningum sínum til að styrkja efnahagsreikning bankans og annarra fjármálafyrirtækja, sem eiga, jú, heilmikið af fasteignum og mega alls ekki við því að bólan á íslenskum fasteignamarkaði fari að leka eða hvað þá að hún springi.