Í dag var kvaddur góður vinur og félagi, Birgir Þórisson. Birgir er einhver ljúfasti maður sem ég hef kynnst. Mörg hundruð manns kvöddu hann í Neskirkju í dag, góðan dreng og félaga. Þó að Birgir hæfi íþróttaferil sinn í Fram, sem ávallt verður talið honum til tekna, varð hann fljótt KR-ingur og mikil driffjöður í því félagi. Skíðadeild KR væri ekki söm ef ekki hefði notið krafta Birgis, Þóris föður hans og Önnu Laufeyjar konu hans. Sumir menn bera með sér einstaklega góðan þokka, eru ekki fyrirferðamiklir eða með mikil læti – þurfa ekki að láta mikið bera á sér. Birgir var slíkur maður. Hann hafði hins vegar alltaf mikið fram að færa þegar hann lét til sín taka. Og hann var góður drengur. Birgis Þórissonar verður sárt saknað
Það er við hæfi að spila sorgarmars eftir Jules Massenet (1842-1912) í flutningi Art Tatum á þessum degi. Élégie var upphaflega samið fyrir píanó árið 1866 en síðar útsett sem sorgarmars fyrir selló. Art Tatum færði það aftur yfir í píanóið og hleypti djassinum í sorgarmarsinn.
Með þakklæti og virðingu, Birgir Þórisson!