Sverrir Berg ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur með frumraun sinni á bókmenntasviðinu. Drekinn er spennusaga úr íslenskum samtíma – svo miklum samtíma að sögusviðið er nú, vorið 2013. Ég verð að viðurkenna að í mér tókust á eftirvænting og kvíði, þegar ég settist niður með bókina og hóf lesturinn. Eftirvænting vegna þess að góðar spennusögur eru þægilegur félagsskapur og kvíði vegna þess að það er meira en að segja það að byrja rithöfundarferilinn á því að skrifa 350 blaðsíðna skáldsögu úr umhverfi sem lesendur þekkja mæta vel.
Það er skemmst frá því að segja að ég lagði kiljuna ekki frá mér fyrr en ég var búinn að lesa hana upp til agna. Sem fyrr segir gerist sagan í íslenska vorinu 2013. Hrunið er í bakgrunni og söguþráðurinn að stórum hluta sprottinn úr afleiðingum þess. Söguhetjan er bankamaður, sem lífið hafði brosað við í góðærinu. Spennandi líf með risnu, utanlandsferðum og fantabónusum. Allt í einu var það ball búið í október 2008.
Söguhetjan átti erfitt með að fóta sig eftir hrunið en nú, vorið 2013, er útlitið orðið betra. Hann vinnur hjá íslensku fyrirtæki, sem svipar helst til Kroll rannsóknarfyrirtækisins að því leyti að verkefnin eru að koma í björgunaraðgerðir inni í fyrirtækjum, sem standa frammi fyrir alvarlegum fjárhags- og rekstrarvandamálum. Hluti af starfseminni felst í því að stunda rannsóknarvinnu af ýmsu tagi fyrir innlenda og erlenda aðila – kanna bakgrunn einstaklinga og fleira af því tagi.
Sverrir Berg heldur mjög lipurlega á penna og spinnur vef, sem maður festir sig sífellt betur í. Þó að sögusviðið sé Ísland berst leikurinn til Danmerkur, London, Moskvu og New York. Lesandinn er tekinn með í heimsókn til hrægammavogunarsjóðs, sem starfar bæði í London og New York. Rússneskur olíugreifi kemur við sögu og ein aðalpersónan í sögunni er dularfullur Íslendingur, sem kemur frá útlöndum með fullar hendur fjár til að fjárfesta í sínu heimalandi þegar það þarf á öllum sínum vinum að halda. Þessum manni er tekið tveimur höndum hér á Íslandi. Þá er skemmtilegur vinkill á því að rússneskur olíugreifi skuli vilja fjárfesta hér á landi. Nafn bókarinnar vísar til drekasvæðisins og þeirrar olíu, sem talið er að hægt sé að vinna þar.
Glæpurinn í sögunni er skemmtilega fléttaður og þessi lesandi áttaði sig ekki á því hver gerandinn var fyrr en söguhetjan uppgötvaði það sjálf. Það finnst mér skipta máli því ekkert gaman er hægt að hafa af spennusögum, sem eru svo einfaldar og augljósar að maður er búinn að sjá í gegnum plottið fyrir miðja bók. Sverrir lætur hluta sögunnar gerast í fortíðinni, dálítið eins og Arnaldur gerir oft, en samt algerlega á sinn hátt. Tímaflakkið gegnir þörfu hlutverki í spennusögunni þegar upp er staðið.
Sverri tekst að draga upp raunsæja og skemmtilega mynd af umhverfinu og persónunum. Ég þekkti fullt af persónunum í bókinni. Þær ganga meðal okkar hér á götum Reykjavíkur, inni í bönkunum okkar og inni í erlendum fjárfestingabönkum og vogunarsjóðum. Það er gaman að lesa um þessar persónur, samskipti þeirra og umhverfi, þegar höfundurinn þekkir sjálfur þetta umhverfi og þetta fólk. Ekki nóg með það, heldur tekst honum að koma bæði persónunum og umhverfinu lifandi til skila í texta sínum.
Ef ég vissi ekki betur teldi ég að Sverrir Berg væri búinn að senda frá sér nokkrar bækur og farinn að slípast og mótast sem höfundur. Það er enginn viðvanings- eða byrjendabragur á Drekanum, hvorki texta né frágangi. Kápan er skemmtileg og myndræn vísun til Drekasvæðisins. Útgefandi er bókaforlagið Uppheimar. Ég hlakka til að lesa næstu bók eftir Sverri og vona að hann verði fljótur að koma henni frá sér. Við Íslendingar höfum eignast nýjan spennubókahöfund. Ég mæli eindregið með Drekanum.