Ég kaupi oft forræktaðar kryddjurtaplöntur.
Að rækta kryddjurtir er ekki fyrir alla, þá meina ég að sá fyrir þeim og ná þeim í þá stærð forræktunar sem þarf til að vel sé og að uppskeran verði vel nýtanleg fyrir komandi sumar.
Þau ykkar sem viljið en hafið ekki tíma né pláss til að forrækta kryddjurtir getið keypt litlar ódýrar ( kr. 95,- st. ) forræktaðar plöntur frá smásala eða ræktunarstöð, plönturnar eru oft bæði mikið sterkari og jafnvel vaxa og dafna hraðar, þannig að nýtingin verður góð strax fyrrihluta sumars.
Ég hef oft verið spurð hvað ertu að gefa kryddjurtunum þínum þær eru svo sterklegar og stórar og gersamlega fylla út í gluggakistuna eða standa stöðugar og flottar í útipottunum á pallinum eða vermireitnum í sveitinni.
Reynslan hefur kennt mér að kaupa litlar forræktaðar plöntur (ennþá á sama verði og í fyrra kr. 95,- st.) frá Gróðrarstöðin Borg í Hveragerði og planta í potta og vermireiti. Þau hjá Borg blanda sjálf bæði moldina og útbúa sinn eigin áburð, hægt er að kaupa hjá þeim poka af sérblandaðri mold og áburðinn Blómakraft sem reyndar fæst víðar.
Við vinkonurnar förum á hverju ári um miðjan maí í blóma- og kryddjurtaleiðangur og heimsækjum garðyrkjubæinn Hveragerði, það er svo gaman að fara í svona leiðangur í góðum félagsskap, kaupa forræktaðar kryddjurtir, tré og runna til gróðursetningar og ekki má gleyma sumarblómunum bæði þeim sem gleðja augað inni við sem og úti.
Þetta er svona vinkonu blómainnkaupa laugardagur með sundferð og mat á Heilsuhælinu. Til baka keyrum við glaðar í bragði með troðfulla bílana af plöntum fyrir komandi blóma- og ræktunarsumar.
Í ár eins og í fyrra keypti ég graslauk, salvíu, tímjan, koriander og oregano og set saman í tvo góða innipotta, annar þeirra fer upp í sumarbústað og hinn heim í eldhús.
Ég nota sjálfvökvandi flöskur í innipottana allt sumarið, ég kaupi plaststúta sem eru skrúfaðir á hvaða plastflösku stærð sem er og sting á hvolf í pottinn, veit að þeir fást meðal annars í DÚKA.
Nokkrar vinkvenna minna rækta einnig matjurtir og auðvita splæsa þær í forræktaðar plöntur, því eins og ég sagði forræktaðar plöntur frá gróðrarstöðvum koma oftast betur upp úr moldinni, verða bæði særri og sterkari og afurðin í samræmi við það.
Gleðilegt ræktunarsumar!