
Ólafur með 16 kg bjöllu í febrúar sl. Þá var hann búinn að léttast um 16 kg í átakinu. Heldur hefur hægt á þyngdartapi síðan.
Nú er átakið hjá Ólafi Arnarsyni búið að standa í 7 mánuði. Markmið hans var að breytast úr 138 kílóa hlunk í grannan mann, undir 100 kg, á einu ári. Þetta byrjaði afskaplega vel og Ólafur missti 16 kg á skömmum tíma. Á fimm mánaða afmæli átaksins sá hann 118 kg á viktinni, en það var frávik sem varð vegna mikils vökvataps nokkra daga í röð. Síðan þá hefur hann verið í kringum 120 kg og þó oftar yfir en undir.
Er hann búinn að missa sjónar á takmarkinu?
Ekki alveg, en hann hefur misst einbeitinguna. Með markvissum aðgerðum forðaði hann sér af mesta hættusvæðinu þar sem öll helstu einkenni feitabollunar voru farin að hrjá hann. Alltof hár blóðþrýstingur og almenn vanlíðan. En með þvi að missa 16 til 20 kg breyttist flest til betri vegar og lífsgæði hans bötnuðu verulega. Þar með er létt af honum ákveðnu fargi sem hann gat notað til að hvetja sig áfram.
Nú getur Ólafur mætt á æfingu eða farið í langan göngutúr án þess að það taki neitt sérstaklega á hann. En jafnframt hefur hann verið upptekinn af því að halda fyrirlestra út um allt land, aðallega fyrir Framsóknarflokkinn. Þar sem landinn er að jafnaði gestrisinn má gera ráð fyrir að kökur og bakkelsi hafi freistað hans. Alla vega hætti hann að léttast og bætti meira að segja á sig aftur 3-4 kg. Og hann náði ekki þeim árangri að verða 116 kg á hálfs árs afmæli átaksins.
En það er enginn dauðadómur yfir átakinu. Nú er vorið komið og þá er gott tækifæri til að bæta í og njóta útiverunnar taka góða göngutúra. Það fór, eins og mig grunaði, að Ólafur fór ekki aftur að léttast fyrr en kosningarnar voru afstaðnar og fundahöld hans til að boða fagnaðarerindi framsóknarmanna að baki. Þetta hefur aðeins verið í áttina hjá honum síðan.
Ég veit samt ekki hvort að upphaflegt markmið að ætla að léttast um 40 kg á einu ári hafi verið skynsamlegt. Sennilega er best að þetta gerist hægt og rólega og þá sé líklegra að ávinningurinn verði varanlegur. Góðir hlutir gerast hægt.
Nú þarf Ólafur að finna eldmóðinn að nýju. Ég mun nú auka álagið á hann um 10-20%. Það gerist ekki með því að lengja æfingar. Æfingarnar verða allar aðeins erfiðari og minni hvíld á milli æfinga. Ég vona að 2. júní verði hann innan við 120 kg. Það er viðunandi árangur á kosningavori þar sem aðal fæða Óla hefur verið kökur og vínarbrauð.
Koma svo, kallinn!