Hér áður fyrr hittust vinkonur öðru hvoru og ræddu málin yfir prjónaskap, en í dag er það meira samvera í góðum félagsskap, jú einhverjar taka handavinnu með sér en flestar eru þó mættar til að spjalla um daginn og veginn, félagsleg vangavelta og kannski pólitík. Í lokin fer hver og ein heim aftur með ýmislegt nýtt og uppbyggilegt sem kemur að góðum notum daglega.
Í viðskiptum er oftar en ekki talað um nauðsyn tengslaneta, en það er jú akkúrat það sem um er að ræða í þessum skemmtilegu vinkonuhittingum.
Ég er svo heppin að eiga frábærar vinkonur til 40+ ára og þegar við hittumst reynum við að gera okkur glaðan dag með einhverju skemmtilegu, út að borða, helgarferð í sumahús eða bara kvöldstund í heimahúsi yfir góðum mat.
Þetta eru á margan hátt ótrúlegar stundir sem engin okkar vill fara á mis við og alltaf förum við einhvers vísari frá borði, barnauppeldi, hjónaerjur og vandamál af ýmsu tagi er krufið, þetta er eins og góð hópþerapía sem enginn þarf að greiða fyrir, þarna er skipst á skoðunum um pólitík og það skemmtilega er að fáar eru sammála og virðing er borin fyrir skoðunum þó ólíkar séu.
Meðfylgjandi myndir eru frá einum af þessum dularfullu samverustundum vinkvenna.
Í þessu tilfelli sá ég um undirbúninginn og þær frábæru, skemmtilegu konur sem komu þessa kvöldstund voru allar sammála um að ýmislegt hefði verið rætt sem kæmi að góðum notum við ákvörðun komandi kosninga þegar þær stæðu í kjörklefanum.
Eins og sjá má var um að ræða bleikt þema við skipulagið hjá mér, aðallega vegna þess að ég datt inn í Litlu garðbúðina (sem ég heimsæki oft) og fann servíettur, dúka og kerti í öllum regnbogans litum, ég valdi sumarliti enda vorið á næsta leiti.
Val mitt á meðlæti með kaffinu voru ýmsir smáréttir, mér finnst skemmtilegra að hægt sé að ræða málin, spjalla og narta í góðan mat af fjölbreyttu tagi í stað borðhalds með forrétt, aðalarétt og eftirrétt, það fyrra gefur einstakt tækifæri fyrir gestina þeir eru þá ekki með fullan munn og spjalla því enn frekar um dagsins gagn og nauðsynjar.
Að lokum vil ég hvetja konur að halda í þessa gömlu og góðu hefð saumaklúbbinn. Þetta tengslanet er öllum til góða, þeim sjálfum, maka, börnunum og þjóðfélaginu í heild.
Nýtum atkvæði okkar í komandi kosningum!