Í síðasta pistli sínum sendir Ólafur mér tóninn. Í skrifum hans fannst mér vera undirliggjandi tónn stærilætis þess sem telur sig hafa sigrað. Á þeim æfingum sem hafa liðið síðan hann skrifaði pistilinn hef ég látið sem ekkert sé. Ég veit að hann bíður eftir að ég geri athugasemd við skrif hans, svo hann geti lýst því yfir hvað hann er sniðugur og eigi auðvelt með að léttast. Ég gef honum ekki færi á því. En ég erfi þetta ekkert við hann.
Mér er vel við Ólaf en mér þykir hálf leiðinlegt hvernig hann lætur á Bylgjunni hjá Heimi og Kollu. Ég held satt að segja að félagsskapur hans við Ólaf Ísleifsson sé ekkert hollur fyrir Ólaf og raunar er það gagnkvæmt. Þeir espa vitleysuna upp í hvor öðrum. Kannski hefði verið betra fyrir Ólaf að verða lögfræðingur eins og foreldrar hans og láta það ógert að tjá sig mikið um þjóðmálin. En það er önnur saga.
En minn tími mun koma. Með vorinu er Esjuferð á dagskrá. Að ganga á Esjuna er langt frá því að vera auðvelt. Sumir hafa fengið ferð með þyrlu niður ef þeir hafa komist nógu hátt upp í hlíðar Esjunnar. Það er nefnilega ekkert þægilegra að fara niður en upp. Esjuferð mun eyða öllu stærilæti úr kolli Ólafs.
Í síðustu grein minni Góðir hlutir gerast hægt lýsi ég því hvernig fyrstu skref feitabollunnar eru þegar það á að taka sig á og verða grannur, svona eins og aðrir menn.
Að vera eins „aðrir menn“ hefur hljómað í eyrunum á mér svo lengi sem ég man. Brynja, konan mín, reynir mikið að breyta mér þannig að ég verði eins og „aðrir menn“. Það er misjafnlega mikill þungi í röddinni á henni þegar hún segir. „Jón minn, þú ættir að raka þig daglega, svona eins og aðrir menn“ eða „Jón minn, getur þú ekki verið almennilega til fara, svona eins og aðrir menn“. Það er ekkert skrítið að vinnufélagar Brynju halda að ég heiti „Jón minn“. Kannski er þetta bara til aðgreiningar frá öllum öðrum Jónum sem hún umgengst.
En það er alveg merkilegt eins og Brynja er dugleg og ákveðin kona, hvað henni gengur illa að láta hann „Jón sinn verða eins og aðrir menn“. Það á einmitt við um okkur feitabollurnar að okkur verður ekki svo auðveldlega breytt í granna menn. Það er alveg sama hvað við þráum það heitt. Það eru svo margar hindranir sem verða á vegi okkar, en leið okkar er vörðuð góðum áformum. Við höfum þróað með okkur púka sem vinnur eins og hann sé eitt af andlitum Evu. Ávallt tilbúinn til að vinna gegn góðum áformum okkar.
Það þarf jákvæðni til að berjast við þenna púka. Eitt af því sem við gerum í Fat-fit er að sannfæra okkur um að við séu flottir eins og við erum. Verjum stöðuna og reynum að þyngjast ekki. En okkar langar til að léttast aðeins og það verkefni er eins og að ganga á Esjuna, en við getum aðeins tekið eitt skref í einu og verðum að gæta þess að hrasa ekki.
Að losna við eitt kíló er stórkostlegur áfangi. Við verðum að byrja á fyrsta kílóinu og ef við losnum við það eigum við að þakka fyrir þann árangur og heita okkur því að bæta því aldrei við okkur aftur. En því miður getur það verið komið aftur á morgun og baráttan stendur alltaf um næsta kíló, ekki næstu 10. Það fer bara eitt í einu.
Þegar það fyrsta er farið endanlega eigum við að líta í spegil og segja „Döf.. er ég flottur“ og hefja baráttuna við það næsta. Eitt skref í einu og að lokum komumst við á toppinn.
Við léttust öll að lokum en það er mikilvægt að gera það í lifandi lífi.